Haukur Þorgeirsson

Haukur Þorgeirsson

Ég er rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Ég lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands 2013 og hef unnið hjá Árnastofnun síðan 2014.

Eftirfarandi er meðal þess sem ég hef rannsakað:

  • Forn kveðskapur, aldursgreinandi einkenni: Mörg forn kvæði eru ekki eignuð neinum höfundi og verður að ráða aldur þeirra af innri rökum. Ég hef rannsakað málsöguleg og bragfræðileg einkenni í rímum og í eddukvæðum sem varpa nokkru ljósi á tímaröð þessara kvæða.
  • Sagnakvæðin – yngstu eddukvæðin: Á 17. öld voru skrásett ýmis þjóðkvæði úr munnlegri hefð, þar á meðal nokkur kvæði með þjóðsagnaefni undir fornyrðislagi. Þessi svokölluðu sagnakvæði eru beint framhald eddukvæðahefðarinnar og ég hef fengist við að rannsaka þau og gefa þau út.
  • Snorra-Edda: Ég er að undirbúa nýja útgáfu af Snorra-Eddu sem á að birtast í ritröðinni Íslenzkum fornritum. Í þeim tilgangi hef ég rannsakað ýmis handrit Snorra-Eddu og tengsl þeirra.
  • Höfundagreining: Hver höfundur hefur sinn stíl og sína orðnotkun og með það í huga má oft verða nokkru nær um það hvaða textar séu eftir sama höfund. Til eru aðferðir til að bera saman orðtíðnimynstur í textum í stórum stíl og hafa þær varpað nýju ljósi á gamlar spurningar um höfunda miðaldatexta.
  • Endurgerð texta: Hið sígræna verkefni textafræðinnar er að rannsaka þau handrit sem varðveita tiltekinn texta og gera grein fyrir sambandi þeirra. Slíka greiningu má síðan nýta til að gefa út textann eins nálægt upphaflegri gerð og heimildir leyfa. Ef útgáfan á að nýtast í höfundargreiningu með stílmælingu er sérstaklega mikilvægt að komast sem næst texta höfundarins.
  • Söguleg hljóðkerfisfræði: Af gömlum kveðskap má ráða margt um þróun hljóðkerfis tungumála og það var viðfangsefni mitt í doktorsritgerð minni. Þar beindi ég sérstaklega sjónum að þeim vitnisburði sem kveðskapurinn veitir okkur um tónkvæði í forníslensku en ætla má að það hafi verið með svipuðum hætti og í norsku og sænsku.